
Húsfreyjan hér á bæ verður víst að fá tossastimpil á sig. Ekkert gengur að uppfæra söguna... hoppum því yfir í nútímann aðeins...og hitt kemur síðar eða ekki!
Hér á bæ er lítill kútur sem nýlega varð þriggja ára að fatta jólin aðeins meira en í fyrra. Hann er þó ekkert rosalega spenntur yfir því að fá í skóinn, fór þó og kíkti að eigin frumkvæði í morgun án áminningar um hvort eitthvað væri í skónum. Hann skilur ekkert í þessum endalausu mandarínum sem Embla fær en er þó lítið að spá í það. Held honum finnist hann eiga innihaldið í þeim báðum.
Hann fékk kartöflu um daginn og fannst það bara fyndið, meðan foreldrarnir börðust við samviskubit því þau áttu kannski pínu sök á því að drengurinn sofnaði seint (fékk of langan lúr deginum áður meðan foreldrarnir réðu miðbæjarkrossgátuna)...
Súkkulaðidagatalið eða "súkkulaðibúrið" (mjög lógískt ef maður spáir í það) er pínu spennandi og hann er að læra tölustafina aðeins með því... þarf að leita að stöfunum.
Í ár þekkir hann mun fleiri jólasveina en í fyrra - þekkti bara gluggagæi þá... nú þekkir hann mun fleiri nöfn og Stekkjarstaur er aðal, enda var leikrit um hann sýnt í skólanum. "Sdekkjataur kom fystur" og puttinn rekinn upp í loft...
Vitundin um jólaköttinn er líka til staðar, og þannig var hægt að múta honum í klippingu...hræðist aðeins rakvélina...
Í dag fórum við í Þjóðleikhúsið og sáum Leitina að jólunum. Það var hin besta skemmtun. Lítið hjarta sló þó svolítið ótt og stundum var gott að kíkja yfir öxlina á pabba og mömmu. Það var bara spennandi að sjá vonda jólaköttinn og "Grýla var pinu fyndin og feit"... Mæli með þessu ef þið eruð ekki þegar búin að sjá þetta.
SVo er stefnt á skreytingar hér á bæ næstu daga og ætlum við að setja upp jólatréð á laugardaginn... allt klárt fyrir jólabrunch hér á sunnudaginn. Jólatréð sóttum við í Heiðmörk síðustu helgi og auk frábærs útivistardags komumst við í mikið jólaskap.
Það hefur þó ekki enn gefist tími í jólakökubakstur, en það kannski rætist úr því á næstu dögum!



