"Í Ólátagarði"

sunnudagur, desember 28, 2008

Kreppujól

Það hafa kannski ekki allir efni á jólatré, sonurinn fór nýverið á jólasýninguna "Leitin að jólunum"... Eitthvað hefur honum fundist jólatréð í gamla daga athyglivert, því um kvöldið kallaði sonurinn á foreldra sína inn í stofu, þá búinn að redda blönkum jólum á krepputímum. "mamma, pabbi, ´jáið jólatjéð mitt"!

Gullmolasöngur frá Óðni

"Gat í nefið, gat í nefið og so núa þau sér í hring!"

Gleðilega hátíð!



Við sendum ykkur bestu jóla- og nýárskveðjur kæru vinir og vandamenn!

Jólin hér á bæ hafa verið með rólegasta móti og allir standa á blístri af miklu jólaáti og lítilli hreyfingu. Þetta hefur verið sannkallað frí og gott og nauðsynlegt á stundum að leggja tölvunni og horfa svolítið á imbann í staðinn.

Óðinn blómstrar og orðaforðinn eykst dag frá degi. Í göngutúr í dag í miðbæ Reykjavíkur kom bersýnilega í ljós að hann þurfti virkilega að fá útrás fyrir hlaup og hopp. Nýir hæfileikar og óvæntir komu í ljós þegar drengurinn tók upp á því að sýna listir sínar á Skólavörðustígnum. Sonurinn hentist í allskyns snúningum og sveiflum á gangstéttinni og var aldeilis upp með sér. Foreldrarnir höfðu áhyggjur af því að nýju gallabuxurnar entust ekki göngutúrinn. Móðirin hrósaði honum fyrir fimleikahæfileikana (hélt þetta væru æfingar í anda "Latabæjarskólans" eins og hann kallar íþróttaskólann sinn. En þá stoppaði sonurinn, setti hendur á mjaðmir og sagði hálfhneykslaður á skilningsleysi foreldranna.. "ég er ekki í fimleikum - ég brík"... já - upp úr þurru er sonurinn farinn að breaka á götum borgarinnar! ...og svo hélt hann áfram og þurfti að toga hann áfram upp götuna þegar þolinmæðina þraut!

sunnudagur, desember 21, 2008

Jólaundirbúningurinn heldur áfram

Þorláksmessu var þjófstartað í kvöld og trénu stillt upp í stofunni þegar börnin voru nýsofnuð. Fyrst var það í heitu vatni í baðinu og vaknaði Óðínn og þurfti að pissa. "vá, ´tórt jólatjé" -Það má ekki saga gat í loftið"

Síðan sofnaði hann og vaknaði auðvitað aftur skömmu síðar (alltaf svona þegar þörf er á vinnufrið)... "Vááá - jólatjéð mitt."... (mamman; "já og við söguðum ekki gat í loftið, heldur tókum neðan af trénu"). Óðinn; "æi - fyrirgefðu"....algengt svar hjá kútnum reyndar í ótrúlegustu samræðum.

Og skemmtilegur texti Óðins, við Jólasveinar einn og átta;
"Jólasveinar
utangátta
eru að kom af fjöllunum
Þá var hningt í Hólakirkju
med hann Jón á völlunum."

fimmtudagur, desember 18, 2008

Tossastælar...jólaundirbúningur



Húsfreyjan hér á bæ verður víst að fá tossastimpil á sig. Ekkert gengur að uppfæra söguna... hoppum því yfir í nútímann aðeins...og hitt kemur síðar eða ekki!

Hér á bæ er lítill kútur sem nýlega varð þriggja ára að fatta jólin aðeins meira en í fyrra. Hann er þó ekkert rosalega spenntur yfir því að fá í skóinn, fór þó og kíkti að eigin frumkvæði í morgun án áminningar um hvort eitthvað væri í skónum. Hann skilur ekkert í þessum endalausu mandarínum sem Embla fær en er þó lítið að spá í það. Held honum finnist hann eiga innihaldið í þeim báðum.
Hann fékk kartöflu um daginn og fannst það bara fyndið, meðan foreldrarnir börðust við samviskubit því þau áttu kannski pínu sök á því að drengurinn sofnaði seint (fékk of langan lúr deginum áður meðan foreldrarnir réðu miðbæjarkrossgátuna)...

Súkkulaðidagatalið eða "súkkulaðibúrið" (mjög lógískt ef maður spáir í það) er pínu spennandi og hann er að læra tölustafina aðeins með því... þarf að leita að stöfunum.

Í ár þekkir hann mun fleiri jólasveina en í fyrra - þekkti bara gluggagæi þá... nú þekkir hann mun fleiri nöfn og Stekkjarstaur er aðal, enda var leikrit um hann sýnt í skólanum. "Sdekkjataur kom fystur" og puttinn rekinn upp í loft...

Vitundin um jólaköttinn er líka til staðar, og þannig var hægt að múta honum í klippingu...hræðist aðeins rakvélina...

Í dag fórum við í Þjóðleikhúsið og sáum Leitina að jólunum. Það var hin besta skemmtun. Lítið hjarta sló þó svolítið ótt og stundum var gott að kíkja yfir öxlina á pabba og mömmu. Það var bara spennandi að sjá vonda jólaköttinn og "Grýla var pinu fyndin og feit"... Mæli með þessu ef þið eruð ekki þegar búin að sjá þetta.

SVo er stefnt á skreytingar hér á bæ næstu daga og ætlum við að setja upp jólatréð á laugardaginn... allt klárt fyrir jólabrunch hér á sunnudaginn. Jólatréð sóttum við í Heiðmörk síðustu helgi og auk frábærs útivistardags komumst við í mikið jólaskap.

Það hefur þó ekki enn gefist tími í jólakökubakstur, en það kannski rætist úr því á næstu dögum!









mánudagur, desember 08, 2008

Lítill bókaormur

Þegar Embla fór að gormast um á rassinum komst hún með puttana í ýmislegt spennandi. Hvað er skemmtilegra en að toga allar bækur heimilins úr hillunum? Tekin 29.okt 2008