Af Óðni!
Það birtir ekki til á blogginu eins og úti... það er mikil áskorun að halda lífi hér. Aðallega er það photoshop letin sem hrjáir en enn reyni ég að gefa innihaldslítið loforð um bætur á myndum hér og fréttum!
Óðinn fór í fyrsta sinn í bíó í gær með pabba sínum. Hann sá plakat í hjólaferð um daginn og auglýsingu þegar hann fletti Mogganum yfir matardisknum eitt hádegið (ótrúlegur áhugi hjá þeim báðum systkinum á dagblöðum. Trailerinn var googlaður og þar að sjálfsögðu var hann strax kominn í gervi Stígvélaða kattarins. Sagði þarna er maðurinn, kóngurinn og "ég" þegar hann sá köttinn. Fataval hefur verið eftir því síðan, en engin föt á heimilinu eru bara föt, þau eru öll gervi hinna og þessara persóna.
Draumurinn hans rættist í gær eftir að mútur höfðu staðið yfir í viku "Ef þú ætlar á bíó þarftu að hlýða og gera þetta og hitt"... mjög uppbyggilegt uppeldi! En það virkaði. Nú þarf að finna næstu mútur.
Allt virðist eðlilegt í lífi hans, hvort sem það er fyrsta bíóferðin eða fyrsta mótorhjólaferðin sem hann upplifði um daginn á nýja hjólinu hans Sigga frænda. Foreldrarnir vissu ekki að hann hefði fengið að prufa og hann sagði ekkert um þessa upplifun frekar en bíóferðina! Lengi lifi Facebook, þar sem foreldrarnir eru farnir að njósna um líf frumburðarins.
Óðinn er að uppgötva peninga og farinn að biðja um þá í gríð og erg, greinilegt að það hefur haft áhrif að foreldrarnir snéru sér að beinni peninganotkun í stað kortanotkun!
Það er greinilegt að foreldrarnir mega fara að bæta sig í að halda kaffiboð og vera einnig duglegri í að heimsækja vini. Ísold og Halli komu í heimsókn ásamt nýjustu krúttíbollunni henni Kötlu sem er alveg ómótstæðileg og fær alla eggjastokka til að klingja hærra en Hallgrímskirkja (nei, ekki fleiri börn væntanleg heee, alveg meira en nóg að gera í Kópavoginum með þessi tvö). Óðinn hefur síðan heimsókin var talað um þessa líka fínu afmælisboðsveislu hans... skýr skilaboð að mínu mati á að bóta er þörf!
Óðinn er á sannkölluð "ég elska" tímabili.. þannig er hann stöðugt að faðma móður sína, kyssa hana og knúsa og með fylgja setningar eins og "Ég elska þig mamma" og "Ég elska þig svo mikið mikið mikið mamma"... "Elskar þú mig mamma?"... þetta segir hann um allt og ekkert s.s. í sveitinni um daginn "Ég elska dýr" "ÉG elska kýrnar", "Ég elska sveitina" o.s.frv. Pabbi hans er þó eitthvað útundan þar sem hann virðist of duglegur að stríða honum, "Ég elska ekki þig pabbi"...
0 Comments:
Skrifa ummæli
<< Home