"Í Ólátagarði"

fimmtudagur, september 17, 2009

Vatn, vatn, vatn

Nýjasta sport á bænum er að standa uppi á upphækkun og busla í vaskinum
Þýðir nokkur fatasett á dag og mikið vatn út um allt inni á baði!
Foreldrarnir fá smáfrið á meðan, en fá svo að taka til hendinni og þurrka,þurrka og þurrka...

miðvikudagur, september 16, 2009

málþroski

Embla Ísól bætir stöðugt við nýjum orðum. Nú eru komin ca 20-25 orð hjá henni en hún er þó ekki enn farin að tengja saman tvö orð nema í söng... með söngnum talið eru orðin mun fleiri (syngur Dvel ég í draumahöll og Afi minn og amma mín.

Nýjustu orðin eru ÓI (Óðinn) og BÚIN sem hún segir alveg skýrt.

Nú verður gaman á næstunni því Óðinn bætti svo rosalega við orðaforða þegar hann byrjaði í leikskólanum sem tengist líklegast líka aldrinum ;) Ótrúlega krúttlegur aldur

Svo er ekki verra að pirringur í skapinu minnkar með hverju orðinu sem hún getur tjáð sig á annan hátt en með því að öskra eða gráta ;)

Leikskóli

Þá er dóttirin dottin í kerfið og hennar skólaganga hafin. Byrjað var á að stilla henni upp við Kópahvolsskiltið á leið inn í skólann og átti að taka sambærilega mynd og sonurinn fékk. Smellt var af tveimur myndum, en úpps - ekkert kort í vélinni :S
Það verða því falsaðar myndir í framtíðinni birtar sem FYRSTA DAGS skólamyndir

Hún var nú ekkert á því fyrst að fara inn um aðrar dyr en hún er vön á leikskólanum en samþykkti það svo... hélt að foreldrarnir væru eitthvað að villast og ætlaði að stýra þeim þá leið sem hún hefur farið frá því hún fæddist.

Embla tók sér síðan sínar 10 mínútur sem fyrr þegar komið er innan um ný andlit og umhverfi. Þá tók mín sinn stól og settist hjá krökkunum í söngstund. Svo fór hún að leika sér og bara mjög sátt. Hún var nú síðan ekki lengi að finna uppáhaldsleikfangið - opna og loka glugganum - eitthvað sem ekki er vel séð. Þetta var svo gaman að hún vildi ekki fara heim og var því aðeins lengur en til stóð svona fyrsta daginn.

Nú eru síðustu dagarnir með Sirrý ömmu og líklegt að lítil snúlla eigi eftir að sakna svolítið dekursins og athyglinnar þar á bæ.

Embla Ísól er yngsta barnið á deildinni, eina barnið sem er fædd 2008 enn sem komið er. Foreldrarnir eru nú ekki smeykir um að stóru drengirnir kaffæri henni miðað við skap og ákveðni dótturinnar. Fyndið hvað þeir höfðu meiri áhyggjur af frumburðinum innan um mun stærri stráka, en henni núna sem er enn yngri en þegar Óðinn byrjaði....

Móðirin er dottin í stjórn í foreldrafélaginu svo líklegast er hún föst þar næstu árin. Sýnist fólk með eilífðarráðningu þar.

miðvikudagur, september 09, 2009

ömmusystir



Aðfararnótt 8. september bætti húsmóðirin á sig titlinum ÖMMUSYSTIR. Hún hélt að þetta yrði svolítið svakalegt þegar að þessu kæmi, en hún auglýsir nú þennan titil stolt út um holt og hæðir.

Myndunum af óskírðum hárfagra er stolið á Facebooksíðu nýkrýndra foreldra. Litli frændi fæddist 14,5 merkur og 51 cm.

Óðinn getur ekki beðið eftir að fá að hitta litla frænda sinn sem er nýkominn út úr maganum á Fríðu stóru frænku. Og fylgdi með spurningin þegar honum voru sögð tíðindin "kom hann þá út um rassinn?"... ekki veit ég hve börnin fá mikið af detail upplýsingum í skólanum, amk hefur útskýringin "kemur út úr maganum" dugað vel heima hingað til...

þriðjudagur, september 01, 2009

sofandi eru börnin sætust!

Stundum eru börnin eins og síamstvíburar!

Hvar er litla ungabarnið okkar?

Þann 21. júlí breyttist Embla í krakka! Þá ákvað hún að hún nennti ekki lengur að vera Hoover ryksuga fyrir foreldrana og ákvað að hún kynni að ganga og að sjálfsögðu voru sumar dömur ansi montnar ;)



Það er greinilegt að Emblos er margt til lista lagt. Hún hefur greinilega notað tímann vel meðan hún var á rassinum, því hún fór strax að hlaupa og var mjög stöðug í hreyfingum. Kannski er bara betra eftir allt saman að börnin fara að ganga seint ;)

Sama dag ákvað hún einnig að það væri ekki töff að vera með smábarnagrind á matarstólnum og smekkurinn varð heldur ekki töff þó aftur sé búið að samþykkja smekkinn. Öruggara þótti að fjarlægja öryggisgrindina af stólnum og leyfa henni að sitja líkt og stóri bróðir gerir!

Emblu finnst biskupsstóllinn mjög flottur og gerir þarfir sínar þar ef foreldrarnir átta sig í tíma á hvað er í gangi hjá dömunni. Henni þykir þetta mjög merkilegt og foreldrarnir gera sér nú vonir um að dóttirin verði talsvert fyrri til en sonurinn að losa sig við bleyjuna!



Það er flottast af öllu að fá að drekka úr glasi eða öllu heldur bolla. Greinilegt að stútkönnur eru bara fyrir lítil börn eins og Óðinn stóra bróður sem gengur illa að losa sig við þau þægindi sem fylgja þess háttar hönnun.

Skoppa ( og skrítla)

Sonur biður um að fá að tússa mynd.
Móðirin nýtir tímann og stekkur út með ruslið.
Móðirin kemur inn 2 mínútum síðar
og þá lítur sonurinn svona út...



Það var ekki annað hægt en hlæja með hamingjusömum syninum sem nú var Skoppa sjálf!