"Í Ólátagarði"

miðvikudagur, janúar 18, 2006

Grænir dagar

Það má nú annars bæta því við hér að húsfrúin er aðeins farin að láta sig hverfa af heimilinu. Þannig fór hún í matarboð á föstudaginn og var bara furðuróleg yfir því að vera í burtu. Hún bjóst við að hún yrði dílótt í framan af stressi, en það gekk bara mjög vel hjá þeim feðgum og Óðinn svolgraði í sig mjólk úr pela. Það má þó taka fram að þegar heim var komið heyrðist hávaðaorg langar leiðir, syninum fannst mamma greinilega alveg hafa verið nógu lengi í burtu.

Gærkvöldinu var svo eytt í Smáralindinni, nánar tiltekið í Hagkaupum, þar sem húsmóðirin og aðalkokkur heimilisins lærði allt um baunir og korn, tofu gerð, græna ógeðisdrykki og lífrænar matvörur hjá henni Sollu bollu sem húsfreyjan hefur nú aldrei þolað mjög vel. Það má því búast við að á næstu dögum fari fram mikil tilraunaeldamennska á heimilinu á grænum dögum. Í næstu viku verður svo leikurinn endurtekinn en þá ætlar húsfreyjan að fræðast nánar um hráfæði og læra að elda slíkt.

Skírn í undirbúningi

Það er ósköp lítið að frétta héðan af heiðinni. Mikill kuldi og snjór úti, svo síðustu dögum hefur að mestu verið eytt innandyra. Eftir að hafa runnið stjórnlaust allverulega út á hættuleg gatnamót um daginn á jeppanum var honum lagt þar til trassarnir gæfu sér tíma til að setja vetrardekkin undir. Ákveðið var að stefna ekki lífi stubbsins í meiri hættu en nauðsynlegt er. Það er því svolítið öfugsnúið að loksins þegar snjórinn kemur og leikveður jeppanna, þá stendur hann bara í innkeyrslunni óhreyfður og niðurgrafinn....hvurslags gáfulegheit eru það nú ;)

Annars er stefnt á kristna skírn og mat að heiðnum sið hér um helgina til að hafa smá mótvægi í þessu. Eftir að uppgötvaðist að Þorrinn byrjar á föstudaginn, þótti ekkert annað koma til greina en bjóða upp á þjóðlegan íslenskan mat. Held að húsfrúin sé eitthvað skrítin, því hún er allskostar ekkert hrifin af úldnum sýrulegnum mat. Hún skellir því kannski í eina brauðtertu og litlu syndina ljúfu...

Það hefur verið mikil leti hér við að dæla myndum í tölvuna og vinna, þannig að engar myndir fylgja að sinni, en það eykur bara spennuna þar til næst :)

föstudagur, janúar 13, 2006

Nokkrar vinamyndir

Hér eru nokkrar myndir frá heimsóknum vina og vinkvenna ;)
Fyrir þá sem ekki vita, þá eru þetta í fyrsta lagi; Einar Þór, Karítas og Elías Karl sonur þeirra.
Í öðru lagi; Árni, Anna María og dæturnar María og Áshildur. Held nú samt að ekki hafi þau öll náðst á myndarammann.
Og jú Ása Dagný frænka með Gunnar litla.
og svo komu frá Mílanó Egill, Cristine og dóttir þeirra Nadine Björk sem knúsaði og kyssti litlu tásurnar hans Óðíns, voða sæt ;)

eitthvað nýtt...

Óðinn hefur tekið upp á nýjum háttum, sem líkast til sýna aukinn þroska. Í fyrrinótt vaknaði móðir hans alveg út á rúmbríkinni og sonurinn sem fékk að lúra á milli lá alveg þversum þegar hún opnaði annað augað til að athuga hvort ekki væri allt með felldu. Móður hans þótti þetta bara voða sætt þó efast megi um að henni finnist þetta voða sætt þegar hann verður orðinn stærri og leggur í vana sinn að liggja svona. Föðurnum þótti þetta ekki alveg jafnsætt, enda vaknaði hann við þung spörk í bringuna frá syninum. Líkast til hefur Óðni gengið illa að sparka ofan af sér stóru sænginni og því farið þessa leiðina til að komast undan feldinum. Honum finnst jú ekkert voða gott að liggja rólegur undir sæng, mun skemmtilegra að sparka henni af sér og frysta litlu tásurnar.

Og viti menn, hann hefur stöðugt verið að bæta sig í svefnvenjum síðustu daga, lúrir nú orðið út næturnar og oft er fyrsti svefnlúrinn í 6-7 tíma, drekkur og sefur svo bara enn meira. Hefur síðustu daga því sofið í 10-12 tíma í senn... vonandi að svona verði þetta áfram. Maginn virðist vera að komast í stand, amk með hjálp dropanna.

þriðjudagur, janúar 10, 2006

MH hittingur

Húsfrúin útskrifaðist úr MH jólin 1994 og síðan þá hefur lítill og fagur hópur samstúdína og vinkvenna hist árlega og skálað fyrir þessum merka atburði. Allajafna hefur verið farið út að borða og þá yfirleitt þann 21. des eða í kringum þann merka dag. Í þetta sinn var gerð undantekning á og hittumst við í Skálaheiðinni sökum aldurs Óðins og að móðirin sá sér ekki fært að vera of lengi frá honum sökum magakveisu og grátkasta. Það var því skálað á heiðinni og voru snæddar pizzur af a la Halldora´s matseðlinum sem voru tær snilld. Birna gat verið með okkur, en eins og flestir vita er hún nú búsett í Haag. En hún er þó væntanleg á Klakann aftur næsta sumar ;)
Leyfum myndunum að tala... litli snúðurinn kann sko að fanga athygli kvenþjóðarinnar, fékk þær til að hossast með sig....

laugardagur, janúar 07, 2006

Stækkar óðfluga





Segja má að Óðinn dafni vel. Það tognar vel úr honum á hverjum degi og hann er meira að segja aðeins farinn að taka í hendurnar ef hann krefst dekurmeðferðar með miklu vaggi og ruggi. Hann fór í 6vikna skoðun í vikunni og þegar hann var vigtaður missti læknirinn út úr sé "vá"... já, hann er orðinn 5650 g en fæddist 3820, svo þetta er tæplega 2 kg þyngdaraukning á 6 vikum...Hann er því ekki lengur neinn kjúklingur heldur lítill einstaklingur sem er farinn að sýna ýmis þroskamerki. Þannig brosir hann og skríkir framan í hvern þann sem veitir honum athygli, er farinn að fatta að þessir skrítnu armar sem eru alltaf að flækjast fyrir honum tilheyra honum og að hann geti teygt sig í allskyns hangandi hluti sem foreldrar og gestir hrista fyrir framan og ofan hann. Nú og svo hjalar hann orðið þvílíkt. Hann virðist því óttalega venjulegt barn og fylgir eðlilegum þroskaferli. Reyndar hvað varðar þyngdina, þá er spurning hvort hann erfi hæð föðurs og ummál móður þannig að við skjálfum í beinunum þegar hann verður 10 ára. Tek það þó fram að móðirin var óttaleg títla fram eftir öllum unglingsaldri, það breyttist eiginlega ekki fyrr en hún kynntist donuts kleinuhringjum í kringum 18 ára aldurinn :)

miðvikudagur, janúar 04, 2006

...gaf bara skít í nýtt ár!!!



Óðinn fagnaði nýju ári með þessari líka aftansprengju, enda þá búinn að halda í sér í 6 daga. Það má því segja að hann hafi aldeilis bara gefið skít í þetta nýja ár. Við skulum nú samt vona að hann sjái að sér og njóti ársins, sýndist hann gera það amk þegar búið var að þrífa hann og þýddi lítið annað en að setja hann í bað í framhaldinu..

Annars voru jólin hefðbundin að öllu leyti nema það var lítið jólabarn með okkur og pakkarnir mjöööögggg margir að mati foreldranna. Það er spurning hvort við verðum ekki bara að fara að byggja við húsið, svo mikið á drengurinn orðið. Það voru nokkur jólaboð svo drengurinn er orðinn ansi samkvæmisvanur... gott að venja þau nógu snemma við! Hann sýndi sparisvipinn í öllum tilvikum, svo virðist sem hann sofi þegar hávaðinn er nógu mikill. Þannig svaf hann skellihlæjandi af sér 50 manna jólaboð og heila giftingu á nýársdag. Já, drengurinn er búinn að fara í sína fyrstu giftingu,en Edda Lára og Halli létu loks pússa sig saman eftir 16 ára sambúð, 3 börn og 3 hús.

Gamlársdagur
var annasamur sem og aðfangadagur en matseld og veisluhald gekk vel. Þegar sprengjurnar voru að ná hámarki datt Óðinn útaf og vaknaði svo ekki fyrr en eftir að þeim linnti og tók þá þátt í miklum dans og söng hér fram undir morgun. En leyfum myndunum að tala ...(smellið á undirstrikuðu orðin til að komast inn í myndabankann...)

þriðjudagur, janúar 03, 2006

Gleðilegt ár

Gleðilegt ár!
Hlakka til að sjá ykkur á nýju herrans ári 2006!
Jólasagan er í smíðum og er væntanleg ásamt myndum...