"Í Ólátagarði"

þriðjudagur, júní 03, 2008

Stiklur


Þar sem húsmóðirin hefur ekki staðið vaktina síðustu daga verður hér stiklað á stóru frá síðasta bloggi...
____________________

Þegar fólk eyðir fleiri stundum á steypunni heima heldur en í vinnunni kviknar löngun í að gera heimilið meira kósý og persónulegra. Þannig hafa "grænir" fingur húsmóðurinnar plantað Ikea tré og blómum á veggi íbúðarinnar og aldrei að vita nema eytt verði í alvöru plöntur líka fyrir helgina.



Einnig þótti loksins kominn tími (3,5 árum eftir að flutt er inn) á gardínur í stofuna. Myndarlegi gæinn sem bjó í húsinu andspænis er nefnilega fluttur og einn talsvert eldri með varúlfaloðið bak fluttur inn, húsmóðurinni til mikillar armæðu (léleg skipti þar). Útsýnið er semsagt ekki jafnfagurt og áður og því vissara að geta lokað það úti og okkur hin inni...

Svo verður haldið áfram að snurfusa fram að helgi með hinu og þessu... skyldi takast að finna fagrar myndir til framköllunar á veggina fyrir skírn til að gera heimilið enn persónulegra??? kemur í ljós...

__________________

Eitt af því sem konur hafa áhuga á eftir barnsburð er vigtin. Vigtin hér virðist eitthvað biluð. Kannski ástæðan sé sú að húsmóðirin hleypur ekki hálfmaraþon eins og ein í fjölskyldunni og ekki heldur 8 km eins og góð vinkona gerir í Vesturbænum (óbeinu aðhaldi og hvatningu hér beint til spantex gellanna heee).

Húsmóðirin hugsaði þó á fimmtudaginn að nú væri nóg komið í þyngdaraukningunni og svuntusöfnun. Það var þegar hún hlammaði sér upp í bílinn sem við það vaggaði vel til hliðanna, ekki bara svona nett einu sinni til að jafna þyngd, heldur hristist hann vel og alltof lengi, svo lengi að húsmóðirin hugsaði "nei, andskotinn - ég trúi ekki að ég sé orðin svona þung" - síðan þegar bíllinn loks hætti að vagga prufaði hún að velta sér til og frá til að athuga hvort þetta rugg yrði endurtekið sem það gerði ekki ... Henni var því "létt" þegar hún kveikti á útvarpinu og fékk þar staðfestingu á að þetta var "bara" rosastór jarðskjálfti. Prins póló var því opnað og étið af bestu lyst.

Á föstudagsmorgninum fóru mæðgurnar síðan á jarðskjálftaslóðir eða í Ostabakka ásamt vinnufélögum og gerðu bústaðinn kláran fyrir sumarið.

_________________

Í leikskólanum er nýlega yfirstaðin vika sem var tileinkuð Astrid Lindgren. Sonurinn heltekinn af Emil og Línu eftir hana. Það tók þó húsmóðurina nokkra daga að fatta að frekjulegi öskurtónninn í syninum var í raun eftirherma af föður Emils að kalla á hann "Eeeemmil". Stundum er bara erfitt að skilja 2,5 ára tungumálið...

Ástin á apanum kviknaði aftur í kjölfarið þegar hann tengdi hann við Línu langsokk


________

Móðir: "Nei, Óðinn ekki þetta, ekki taka moppuskaftið"
sonur: "nei, mamma."
Móðir: "Hlýddu Óðinn. Þetta er ekki leikfang, þú getur brotið eitthvað! svona nú -EINN" (1-2-3 skammarkróks ögunarkerfið hér)
Sonur: "Nei, mamma Óðinn leika"
Móðir: "Tveir - vertu góður og settið skaftið aftur inn" (sagt blíðum rómi eftir ógnandi tvo)
Sonur: (sonurinn beygir sig og setur puttann i moppuklemmuna "Mamma - Krókódillinn bíta Óðinn sinni"

__________________




Faðir: "Heyrðu, við verðum að muna að taka þessar sokkabuxur sem Óðinn er í frá, eru orðnar of litlar, klofið niðri við hné. Ég lét hann fara í þeim í leikskólann í morgun, nennti ekki að skipta..."

Móðir: "Já, munum það eftir þvott á þeim."

Stundu síðar hendir húsbóndinn sokkabuxunum til húsmóðurinnar sem er á leið í þvottaherbergið...

Móðir: "Já,há, bíddu eru þetta sokkabuxurnar sem þú varst að tala um?"

Faðír: "já, þær eru orðnar eitthvað snollaðar"

Móðir: "Mig skal ekki undra, systir hans á þær!"

___________________________

Púst getur líka leitt gott af sér, sérstaklega þar sem yfirleitt þarf að beita brögðum til að fá soninn til að samþykkja notkun á því. Þannig er gula pústið Lilli klifurmús og það bláa Mikki refur. Belgurinn er síðan tré og sá sem er ekki í trénu reynir sífellt að komast upp í það... mikið leikrit hér með það. Á meðan er talið upphátt sem hefur nú leitt til þess að sonurinn telur upp að 10. Hann hefur gert það stundum og svo næst ruglast hann, en nú er líklegast hægt að fullyrða að hann kann það.

Einnig þykir hann hafa einstaka púslhæfileika og rúllar upp púslum fyrir 4+



______________________

Nú á að hitta prestinn eftir nokkrar klukkustundir. Foreldrarnir standa enn í þeim sporum að geta ekki sagt honum nákvæmlega hvað dóttirin heitir...skyld´ða verða eitt nafn eða tvö nöfn????



Litla rækjan (eitt af síðustu skiptunum sem maður getur notað það heee) hefur nú uppgötvað tærnar sínar, gerðist um daginn þegar húsmóðirin var að skipta á henni og stakk tásunum hennar óvart upp í hana - húsbóndinn benti húsmóðurinni á þetta afrek hennar. huhmmm, já - henni virtist bara þykja tásurnar góðar á bragðið!

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home