"Í Ólátagarði"

mánudagur, maí 25, 2009

Af Emblu!



Þá er daman orðin 15 mánaða. Verð víst að draga til baka að tönn nr. 6 sé mætt en mér sýndist hún komin um daginn, en annaðhvort voru það draumfarir eða að tönnin hefur gengið til baka.

Ekki hefur tekist að fá litla hjartað til að ganga aftur með sparkbílinn sinn. Hún gengur ekki nema hún fái tvo putta til að halda í og þá getur hún aldeilis hlaupið. Hún stýrir ferðinni og treður þannig öðrum fætinum yfir og spyrnir á móti svo örugglega sé gengið í rétta átt. Ekkert er skemmtilegra en sparka í blöðru eða bolta við tilheyrandi brak og bresti í baki þess sem er ígildi göngugrindar hverju sinni.

Hún er farin að sleppa höndum í sófanum og rúminu og lætur sig hrynja á þungan bossann í gríð og erg við þennan fagra hrossahlátur og lófaklapp fyrir sjálfri sér. Þetta er að sjálfsögðu hægt að endurtaka í sífellu. Bara gott mál þar sem þetta styrkir fæturna og jafnvægið.

Þannig hefur dóttirin slegið fjölskyldumet í seinni tanntöku sem og því að fara að ganga.

Móðirin glímir þó enn við hvort hún er paranoid eða hvort hún eigi að kíkja með hana í skoðun þar sem hún stendur mikið í innanverða fæturna svo húsmóðurinni verður hálfillt að horfa, en stundum er þetta í lagi. Ég er þó farin að halda a hún sé bara alveg rosalega varkár og mikil skræfa.

Ísólin okkar uppgötvaði nýlega Stubbana, en athyglin heldur þó bara í 5 mínútur og við Gosa, Dýrin í Hálsaskógi og önnur ævintýri er hún skíthrædd við. Er greinilega hrædd við ákveðnar raddir og tóna. En hún er ótrúlega flink við allar fínhreyfingar, mætti fara að yfirfæra þær í fótaburðinn.

Litla skassið eins og við köllum hana er núna með aðskilnaðarkvíða, var eins og sleikt frímerki á móður sinni í gær með tilheyrandi streitueinkennum hjá húsmóðurinni. Í frekjuflogunum tekur dóttirin sig til og grenjar og öskrar svo það er eins og hún hafi hlaupið tvöfalt maraþon og hárið krullast allt upp af svita og augabrúnir og andlit verða eldrauð með tilheyrandi hori sem endar oftar en ekki í flíkum foreldranna...

Annars er Embla komin með leikskólapláss í ág/sep svo nú er að kenna henni að ganga fyrir það, og svo er hún aðeins farin að æfa sig að drekka úr glasi og hún hefur nú lengi viljað mata sig sjálf þannig að það ætti ekki að verða vandamál.

"Sumir hafa ansi gott þefskyn á nammibirgðir"

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home