Hitinn tók sig upp í nótt og morgun hjá Óðni, svo ákveðið var að drífa í því að láta lækni kíkja á hann, enda mikið að nuddast í eyrunum í nótt. Brunað var því með barnið á Barnaspítalann. Eyrun eru enn fín, hefur náð að grípa kvef ofan í kvefið og svo fengið flensu að auki. Mikill léttir að eyrun eru enn fín, en gæti endað sem eyrnasýking. Fávísu foreldrunum í Skálaheiðinni var ráðlagt að nota helmingi sterkari stíla, því hann er um 9 kg. Til hvers að vera með leiðbeiningar ef það á ekki að fylgja þeim... varað þar við eituráhrifum ef stórir skammtar... en hvað þýðir annað en að hlýða. Svo vonandi fer hann að hressast.
Að sjálfsögðu mátti ekki búast við öðru en að lánsbíllinn myndi gefa sig, eða eins og máltækið segir; Allt er þegar þrennt er! Eftir spítalann startaði ekki bíllinn. Afi Jói kom því til bjargar. Það voru því pínu svaðilfarir hjá litla kópnum, sem nú tekur selsdýfur á gólfinu, ferðast um eins og sannur kópur og þrífur gólfin fyrir móður sína. (reyndar frekar lítið að hnoðast um sjálfur akkúrat núna, en almennt gerir hann það þegar hann er hress. Nú krefst hann súperþjónustu sem undirgefnir foreldrarnir láta að sjálfsögðu eftir honum.)
Það er þó gott að vita að það er alltaf stutt í hlátur og spékoppa sama hvað á dynur...