"Í Ólátagarði"

laugardagur, júní 24, 2006

Sumarið loksins komið?



Vonandi er sumarið loksins komið. Húsmóðirin í orlofinu var farin að halda að það kæmi í ágúst þegar hún lokaðist inn á skrifstofunni aftur... en 7,9,13 að það sé komið til að vera. Þrammað var niður í bæ og rúntað þar aðeins í kerrum með Emmu Lilju og Dísu. Eftir það var aðeins komið við á Bakkabrautinni hjá Sibbu frænku og þar voru einnig Tinna og Hekla sem sleiktu sólina.
Kæruleysi húsmóðurinnar olli svo líkast til nýju kvefi hjá syninum... var líkast til fulldjörf varðandi klæðnað...







föstudagur, júní 23, 2006

7 mánaða töffari

Þá er litli kópurinn orðinn 7 mánaða og minnir það móðurina á að brátt lýkur frábæru fæðingarorlofi og lífsins vinnandi alvara tekur við... en það er þó ekki alveg strax.



Óðni finnst þetta ekki leiðinlegt leikfang, fílar í botn að týnast í kajaknum. Óskar þess líklegast að hann væri með hjólum svo hann gæti notað hann sem göngugrind....

Komin úr útlegð



Sumarbústaðaferðin var mjög fín, þó veðurguðirnir hefðu mátt vera í betra skapi. Það var grenjandi rigning og rok alla vikuna. Fjölskylda Ívars fyllti öll pláss um helgina og svo fjölskylda Guggu þegar á leið vikuna. Mæðginin voru þó ein í 2 daga, þar sem þetta bar allt snöggt að og Ívar gat ekki fengið frí í vinnunni.

Við urðum svo leið á þessu grámyglulega veðri að ákveðið var að keyra í kaupstað Norðurlands á föstudagskvöldið var og prufa að eyða 17. þar, en jú þar átti að vera betra veður en sunnanlands. Það sást nú ekki mikið til sólar, og eitthvað er þjóðhátíðardagurinn minni þarna en hér í borginni. En þetta var þó velheppnuð ferð. Enduðum þó með að tjalda á Svalbarðseyri hjá frænku hans Sigga, því tjaldstæðið á Akureyri var lokað og þjóðhátíð ungmenna í Kjarnaskógi ásamt einhverju rallýliði...(gvöð hvað maður er orðinn gamall). Þetta endaði nú með svaka partýi á laugardagskvöld þar sem Óðinn heillaði alla upp úr skónum og var ættleiddur af húsbóndanum á Svalbarðseyri. Á Akureyri fór Óðinn á Sjallann og horfði á landsleikinn í handbolta, borðaði svo á Greifanum eins og sannkallaður greifi og fílaði í botn að fá að sofa í fellihýsinu.







föstudagur, júní 09, 2006

Bloggfrí í viku

Við erum að yfirgefa heim Internetsins í viku, verðum hér aftur 19. júní (vonandi ;) )
Hafið það gott og Gleðilega þjóðhátíð.

Verðum í Úthlíð Skyggnisskógi og svo vonandi Þórsmörk að viku liðinni.

Óðinn er orðinn hress, pínu hor í nös, tönnsla 2 siglir hratt upp. Móðurinni bregður alltaf svo að sjá eitthvað hvítt í munninum á syninum sæta, heldur alltaf að hann hafi náð að týna poppkorn eða annan óþarfa upp af gólfinu og sett í munninn. Náði í fína táfýluinniskó móður sinnar um daginn, og nagaði hann af bestu lyst þegar komið var að.

hmmmmmm
hafið það sem allra best. Er í símasambandi.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Greining: Flensa

Hitinn tók sig upp í nótt og morgun hjá Óðni, svo ákveðið var að drífa í því að láta lækni kíkja á hann, enda mikið að nuddast í eyrunum í nótt. Brunað var því með barnið á Barnaspítalann. Eyrun eru enn fín, hefur náð að grípa kvef ofan í kvefið og svo fengið flensu að auki. Mikill léttir að eyrun eru enn fín, en gæti endað sem eyrnasýking. Fávísu foreldrunum í Skálaheiðinni var ráðlagt að nota helmingi sterkari stíla, því hann er um 9 kg. Til hvers að vera með leiðbeiningar ef það á ekki að fylgja þeim... varað þar við eituráhrifum ef stórir skammtar... en hvað þýðir annað en að hlýða. Svo vonandi fer hann að hressast.

Að sjálfsögðu mátti ekki búast við öðru en að lánsbíllinn myndi gefa sig, eða eins og máltækið segir; Allt er þegar þrennt er! Eftir spítalann startaði ekki bíllinn. Afi Jói kom því til bjargar. Það voru því pínu svaðilfarir hjá litla kópnum, sem nú tekur selsdýfur á gólfinu, ferðast um eins og sannur kópur og þrífur gólfin fyrir móður sína. (reyndar frekar lítið að hnoðast um sjálfur akkúrat núna, en almennt gerir hann það þegar hann er hress. Nú krefst hann súperþjónustu sem undirgefnir foreldrarnir láta að sjálfsögðu eftir honum.)

Það er þó gott að vita að það er alltaf stutt í hlátur og spékoppa sama hvað á dynur...

mánudagur, júní 05, 2006

Lekandi..

og seinheppnin heldur áfram. Hverjar eru líkurnar á því að eiga 2 bíla sem báðir fá lekanda á sama tíma? Reyndar er talsvert síðan jeppinn bilaði, búið að gera við hann að mestu en bensín frussast enn um allt og búin að vera dágóð bið eftir varahlutum þar. Svo fékk Toyotan lekanda á föstudag, en þá gaf vatnskassinn sig. Þetta er því bíllausa lekandi familían - reyndar smá heppni í óheppninni að Sibba og Siggi gátu lánað okkur einn af sínum bílum, enda nokkur stykki á þeim bænum.

Svo hefur stubburinn tekið út sín fyrstu veikindi, reyndar búinn að vera með lekandi nef mestallan hluta maí, en Hvítasunnuhelgin fór í rugg, klapp og svefnlausar nætur og daga meðan fyrsta flensan (vonandi bara flensa) er tekin út. Ætli við kíkjum ekki til læknis á morgun, en ekki var hægt að fá tíma hjá Barnalækni í dag. Ekki ríkir mikil trú á læknavaktinni á þessum bæ, svo betra að bíða, þar sem stílarnir virðast loksins vera að virka (vonandi). Spurning hvort hin ægilega eyrnabólga hafi náð fótfestu í litlum sætum eyrum!

En batnandi fólki og bílum fer best að lifa...

föstudagur, júní 02, 2006

seinheppin húsmóðir

Húsmóðirin í Skálaheiðinni hefur nú ágætt orð á sér fyrir að vera með þeim seinheppnari. Það virðist ekkert ætla að breytast. Nú er húsmóðirin orðin langþreytt á þessu, hlýtur að fara að hafa áhrif á karakterinn, líkast til hefur það gert það nú þegar. En nú á einum mánuði hefur mælirinn fyllst. Þannig reyndist vera Bangsimon mynd í Tarsan dvd mynd sem var splæst í. Húsmóðirin lét loks eftir sér að kaupa eina flík, fallega peysu í Debenhams, sem selur nú bara fín merki, en nei, 5 dögum síðar spratt peysan bara upp. Sama má segja um flíspeysu sem sonurinn fékk frá 66°, viss um að þið hin hafið ekki lent í því með vörur 66°. Þar sem sonurinn er óðum að vaxa upp úr náttgöllunum sínum var einn gripinn með um daginn í Frönsku búðinni og já, þegar klæða átti soninn í hann, þá bara voru neðstu smellur á báðum fótum ónýtar. Farið var með gallann í búðina og lofað að gera við hann, þetta væri þekkt vandamál (af hverju í and...... er þá ekki gert við þetta áður en varan er seld upphaflega). Svo var gallinn sóttur í kvöld og viti menn, bara var gert við aðra smelluna, og húsmóðirin sem margítrekaði að það væru 2 ónýtar. Þessi náttgalli mun því kosta 5 bílferðir í Kringluna... veit ekki einu sinni hvort áhugi er fyrir því að eiga þennan galla lengur, svo mikið rýkur af húsmóðurinni nú... Sérstaklega þar sem gallinn var bara réttur fram, ekki einu sinni beðist afsökunar á gallanum, né nokkur skaðabót rétt með til að gleðja viðskiptavininn og fá hann til að ganga sáttan út úr búðinni. Hvar eru markaðslögmálin eiginlega....

fimmtudagur, júní 01, 2006

Litlir grallarar

Hér eru nokkrar grallaramyndir...

Litlir töffarar; Óðinn og Gabríel Sölvi...


Gabríel Sölvi, Óðinn og Emma Lilja hittust á dögunum, spurning hvort þeir eigi eftir að slást um hana síðar meir...


Óðinn og Hekla Katrín, eins og gömul hjón ;)

ný tönnsla gægist úr gómi

ný tönnsla, sú önnur í röðinni gægðist upp úr neðri gómi í morgun. Þessi var mun átakaminni en sú fyrsta. Kannski stíflaði nebbinn hafi verið meiri ástæða gráturs við fyrstu tönn, en sjálf tönnin. Þetta getur maður nú bara ekki vitað þar sem drengurinn tjáir sig á eigin tungumáli, þorum ekki alveg að leggja merkingu í orð hans enn sem komið er, svo við ráðvilltir foreldrarnir verðum bara að ráða í hjal, grát og látbragð.

Tannburstinn þykir voða spennandi og ekkert meira spennandi þessa dagana (nema kannskii kisa, en sonurinn ljómar allur upp þegar hún birtist).

Sveskjumauk þykir voða gott...
(Hér er faðirinn sökudólgurinn á útgangi sonarins, að sjálfsögðu ;) )

lítill terroristi

Litli kópurinn verður sífellt meiri terroristi, hleypur um allt í göngugrindinni sem minnir mann óþægilega á að nú er kominn tími til að bretta upp ermar og gera íbúðina "öruggari". Var t.d. í dag kominn með pennaskúffuna í fangið, bara sísvona og svo litla sæta putta í moldina í einum blómapottinum sekúndu síðar. Videotækið er líka svolítið spennandi sem og geisladiskarnir, einnig virðist hann vera að uppgötva að hægt er að nota rimlana til að hjálpa sér að standa upp í rúminu, svo vísast að fara að færa rúmbotninn neðar! Hann heldur allavega þeim fullorðnu vel við efnið!