"Í Ólátagarði"

þriðjudagur, janúar 23, 2007

3. í flensu

Óðinn liggur nú í 3ja degi í einhverri veirusýkingu, með 40 stiga hita, litli kúturinn. Sefur mikið og liggur hálfvegis bara í óráði. Síðan er hann hressari eina og eina klukkustund og þá er reynt að koma mat í hann meðan skap og geta leyfir.

Kvefið minnkar heldur ekki og nú eiga foreldrarnir að fylgjast með asmaeinkennum, eða hvort þetta er bara hreins ansans óheppni að krækja svona mikið í kvef.

Húsbóndinn bíður enn niðurstaða úr prófum og er að herða sig upp í að byrja á næsta áfanga, leiðist skóli ansi mikið...

Annars er nú frá litlu að segja, nema þá helst að líklegast viljið þið sjá myndir og við ekki dugleg þar. photoshop er ekki enn komið í tölvurnar sem eru á heimilinu núna, en vinnsla er í gangi eins og sagt var frá um daginn.

sunnudagur, janúar 14, 2007

Smá tæknivandamál í byrjun árs

Vegna "atvinnuskipta" húsmóðurinnar er smá tæknivandamál með tölvur og búnað á heimilinu. Mikil gleði rikir við að hafa nú fengið nýja og léttari fartölvu, sem kemst liggur við í rassvasann en hún er ekki farin að virka sem skyldi. Þannig vantar enn mjög mikilvægan hugbúnað, s.s. Photoshop, en húsmóðirin er fötluð í öðrum myndahugbúnaði en þessi hugbúnaður er mikilvægur til að vinna myndefnið sem á að birtast hér. Lofað er bragarbót á þessu innan tíðar. Annars er nýtt tölvupóstfang húsmóðurinnar gudbjorgj@ms.is og beinn vinnusími er nú 5692272. GSm er óbreyttur. Vinsamlegast uppfærið þessar upplýsingar hjá ykkur.

Það ríkir grasekkjulíf í Skálaheiðinni. Húsbóndinn í Náms- og prófferð í Noregi og var hann bara nokkuð bjartur í gær á að prófin hafi gengið vel. Von er á honum heim á miðvikudaginn og þá verður farið að leggja drög að 8 ára sambandsafmæli og 1 árs trúlofun sem er einmitt 21.jan.... jamm, tíminn er fljótur að líða....

Þú ert nú líklegast hér að líta eftir nýjum uppl. um soninn óþekka, svo það er nú réttast að láta þær fylgja með...
-Annar jaxl kom um helgina og lentu Sibba og Siggi í andvökunótt með syninum meðan faðirinn var í Norge og húsmóðirin full á öldurhúsum borgarinnar. Svo nú eru komnar 9 tennur, enn vantar eina framtönnina.....
-Sonurinn hleypur um allt og er farinn að geta gengið yfir þröskulda án þess að hrasa alltaf við þessa hindrun.
-Prógram er í gangi með að ná betri svefnrútínu, en syninum þykir best að sofa til hádegis og foreldrarnir þiggja það of oft um helgar... og þetta hefur líklegast áhrif á rútínuna aðra daga vikunnar... svo nú á að fara að reyna að rífa sig upp fyrr um helgar...
-Orðaforðinn eykst dag frá degi. Mikið bablað hér. Nýjasta orðið sem kom í dag er dudda, einnig er komið tsju (sjáðu), datt, edna (hérna) og einhver fleiri, sem ég man bara ekki í augnablikinu...
-Erfiðlega reynist að losna við kvefið. Hann er eiginlega búinn að vera með kvef núna stöðugt í amk 4 mánuði, losnaði einn dag við það og þá stefndi húsmóðirin á að fara með hann að hitta Halla litla sem nú er 10 vikna, en það kom kvef strax aftur og þá varð það off í bili.
-Nú er hlaupabóla að ganga hjá dagmömmunni, svo spurning hvort Óðinn litli fái hana í vikunni, líklegast sloppinn í bili ef hún kemur ekki fram núna í vikunni.

vonandi get ég svo sett inn myndir á næstu dögum...

fimmtudagur, janúar 04, 2007

Nei, sko... ..þú hér :=)

Takk fyrir að gefast ekki upp á blogglata fólkinu í Kópavoginum. Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir allt gamalt og gott.

Héðan er allt ágætt að frétta. Jól og áramót voru með hefðbundnu sniði, fyrir utan prófkvíða húsbóndans, en það er komið að prófum, sem verða þreytt í næstu viku í Norge, svo enn ein Noregsferðin er í vændum þar og vonandi að það gangi allt saman vel. Húsbóndinn er ekki öfundaður af að taka próf á norsku í Lífeðlisfræði, sjúkdómafræði, anatomíu og fleiri líkams- og líffræðitengdum fögum, auk verklegs prófs.

Óðni fannst jólin æðisleg og þykir hann með eindæmum glysgjarnt barn. Því meira skraut og litagleði, því skemmtilegra. Jólatréð fékk að standa óáreitt, enda dagmamman búin að vinna í því allan desember að gera jólatré óspennandi og sjálfsagðan hlut. Húrra fyrir henni... bara horft og dáðst að trénu hér á bæ. Tréð var skreytt með jólakúlum sem Óðinn föndraði og svo fengum við málverk á striga eftir hann og fótafar á gleri...situr ekki auðum höndum þessi dagmamma....



Hér eru frændurnir saman á jólunum á nýjum bílum sem þeir fengu í jólagjöf. Óðinn er farinn að hlaupa um og verður stöðugt minni spýtukarl. Ótrúlegt hvað þetta gerist hratt. 7 framtennur, 1 jaxl og annar á leiðinni, svo það er pirringur hér á kvöldin...

Húsmóðirin byrjaði 2.jan í nýju starfi og flutti í gær yfir götuna í Mjólkursamsöluna. Það var skrítin tilfinning, leið eins og hún væri að fara að byrja í nýju starfi, en samt þó ekki... Skrítið að pakka öllu niður og kveðja alla en samt vera að vinna með þeim áfram... skrítin tilfinning... En það er nú von á einhverjum fleirum á næstunni í ný húsakynni. Spennandi tímar framundan í vinnunni semsagt og harðnandi samkeppni

Óðinn biður að heilsa, vaknaði bablandi á gamlársdag og hefur varla stoppað síðan... skilst víst að málþroskinn taki kipp eftir að þau fara að bera sig á tveimur jafnfljótum...

Að lokum er skemmtilegt frá því að segja að það þykir mjög gaman að hlusta á allskyns tónlist og vanga við hátalarann.