"Í Ólátagarði"

þriðjudagur, maí 27, 2008

45° snúningur og slef

Litla daman sem heitir eitthvað sem aðeins tveir vita er farin að sýna ágæt tilþrif í að velta sér af baki yfir á magann. Fer núna hálfa leið. Einnig snéri hún sér í leikgrindinni 45° svo hún virðist fylgja stóra bróður í þroska enn sem komið er amk.

Litla settlega pena daman slefar einnig meira en nokkur bulldog. Dressið orðið gegnblautt á nokkrum mínútum ef smekkurinn gleymist og því slefdress og kúkadress sem fylla óhreinatauskörfuna þessa dagana. Pirringur er líka mikill því hún er stöðugt með puttana í tanngarðinum. Það sjást þó engin sýnileg merki þess að tönn sé á leiðinni -sjúkk it fyrir mjólkurgjafann, því það þykir mikið sport að læsa um brjóstið og reygja svo hausinn aftur af krafti...sólskinsbros og stundum pínu hlátur kemur svo í kjölfarið þegar húsmóðirin æmtir... svei attan kæra dóttir!

Tölvupóstur var loksins sendur til prestsins í dag þar sem brjóstaþokan veldur einskærri gleymsku þegar símatími er í kirkjunni... daman þarf að fara að heita eitthvað fyrir alheiminum, þó það sé í raun rosa gaman að bara tveir viti nafnið :) spurning um að halda þessu bara svona fram að fermingu? En stefnt er á skírn 8.júní ef presturinn á lausan tíma, annars verður bara haft samband við einhvern annan prest.

sunnudagur, maí 25, 2008

Einn merkilegasti dagur ársins

Jú,jú, þessi dagur er í heilagra daga tölu - sjálfur Júróvísion dagurinn árlegi. Í tilefni dagsins var tekið nett Sísí-kast á stofuna og moppunni lyft á loft og veggi eins hátt og húsmóðirin náði. Húsbóndinn tekur svo við á hærri svæðum því hann er stærri ;)

Einu tré var plantað á stofuvegginn og svo var kvöldmaturinn undirbúinn og lagt í eina júróvísion köku eins og siður er að borða yfir stigagjöfinni. Frönsk súkkulaðikaka frá River café varð fyrir valinu í ár og ég segi bara eitt orð "namminamm".... Sonurinn var sá skynsami og afþakkaði kökusneið því hann sagðist ekki vilja baktus í tennurnar...(hvaðan kemur þessi skynsemi eiginlega?). Dóttirin horfði spennt á hennar fyrstu og alls ekki síðustu júrókeppni og hafði gaman af þessari svarthvítu/silfur litadýrð sem hún sá í 99% tilfella í nettu samblandi við bert hold keppenda.

Takmark dagsins var að vinna Charlotte frá Svíþjóð og hefna þannig Selmuslagsins og vera ofar en í 16. sæti - til lukku Ísland! það tókst! Sigur í sjálfu sér að lenda í 14. sæti og vinna barmgóðu bombuna í snípssíða kjólnum.....Ég held að það sé hægt að gera ágætt grínatriði í anda Rússanna og líklegt að sumar vinkonur geri atriði úr þessu ef þær eru þá ekki þegar farnar að æfa...

jæja, þetta á að vera síða um börn og buru en ekki júróvísion...

fimmtudagur, maí 22, 2008

Tveggja og hálfs

Börnin minna þá eldri óneitanlega á hvað tíminn líður hratt. Frumburðurinn sem foreldrunum fannst fæðast fyrir svona eins og sex mánuðum er orðinn góðum tveimur árum eldri en svo. Það verður komið að fermingarundirbúningi áður en langt um líður...

Læt hér fylgja með eina mynd af systkinunum...

mánudagur, maí 19, 2008

Út fyrir rammann

Greinilegt er að við getum allt eins hent öllum leikföngum á heimilinu. Sonurinn á fínan alvöru barnagítar, sem ég held að við getum allt eins fjarlægt því aðra "gítara" á heimilinu er mun meira glamrað á.



...skil ekkert í því að maður hafi aldrei séð plastpoka sem gítar líkt og sumir gera hér á bæ. Eins og glöggir sjá kannski er sófinn tré og hann er í hlutverki Lilla klifurmúsar að raula "Dvel ég í draumahöll"....ekkert lát á dálæti dýranna hér.

Þetta á ekki bara við um gítara og tré, heldur verður;
elhúsrúllupokinn að brú sem þarf að hoppa yfir
viðargreinar eru brýr
allt sem hægt er að klifra upp á er tré (líka foreldrarnir)
ef tvennt er af einhverju er það piparkökuform
vatnsbyssa varð barn um daginn og huggaði hann byssuna og ók um í dúkkuvagni
grillkveikjarinn er byssa veiðimannsins
og svona mætti lengi telja

...greinilegt að sumir eru færir um að hugsa út fyrir rammann...

3 mánaða snót



Laugardagurinn var ekki bara merkisdagur vegna sveitaferðar og sauðburðar heldur varð litla rækjan á heimilinu 3 mánaða þann daginn.

Það sem kannski er enn merkilegra er að bóndakonan spurði hvað hún héti og húsmóðirin tilkynnti það óvart, svo þá er hún greinilega komin með nafn. Húsbóndanum brá nokkuð, vissi ekki betur en málið væri enn í nefnd, greinilegt að úrskurður liggur fyrir. Við sleppum þá við að hafa netkosningu um nafn eftir allt saman. Þeir forvitnustu geta því hringt í sveitina og spurt hvað hún heitir heee því nú þarf að ræða hvort nefna eigi hana fyrir skírn eða halda spennunni þangað til.

Hún litla sem heitir eitthvað var mæld fyrir helgi auk þess sem þau systkinin voru bæði bólusett. Loksins búið að sprauta Óðinn 18 mánaða sprautunni. Það var grátur og gnístan tanna meðan á öllu þessu stóð, en allir fóru þó brosandi út að lokum.

Litla stóra daman er orðin 62 sentimetrar og 5,9 kg að þyngd og hausinn orðinn 41 cm. Hún er fyrir ofan meðaltalið í þyngd og stærð, sem er svosem ekkert nýtt hér á bæ.

Óðinn fékk mælingu líka og er 91,5 cm og 13,3 kg og verður hann 2,5 ára á miðvikudaginn. Hann er því búinn að stækka um 10,5 cm á einu ári og þyngjast um 2 kíló.(þá er þetta allt samviskusamlega skrásett hér í heimildabankann)

Sveitaferð Kópahvols


Á laugardaginn var sveitadagur í leikskólanum og það þótti litlum Mikka ref ekki leiðinlegt. Þegar við komum á Bjarteyjarsand í Hvalfirði vorum við svo heppin að hitta á sauðburð en ekkert okkar hafði áður orðið vitni að slíkum merkisatburði. Þetta var þó ekki auðvelt fyrir greyið kindina sem þurfti talsvert mikla hjálp og tvísýnt var um líf annars lambsins í nokkrar mínútur á eftir, en allt fór þetta nú vel sem betur fer. Óðni þótti merkilegt að sjá "börnin koma út úr maganum" enda ekki alveg búinn að gleyma því að einu sinni var systir hans í maganum á mömmu. Mikið er nú lagt á þessar blessaðar ær...húsmóðirin þjáðist mikið með þeim sem biðu á fæðingardeildinni þarna að eiga þetta allt saman eftir.

Óðinn var jafn óhræddur og vanalega við dýrin. Elskaði að gefa hestunum að borða hey, horfa á kanínurnar og veltast um með hundinum. Þarna voru einnig hænsni, hanar og kettlingar. Óðinn talaði stöðugt um mús og erfitt að segja um hvort hann sá eina á flótta eða var í Egner heiminum.

Óðni þótti mjög svo fyndið að sjá lömb með snuð og ætlar að gefa lömbunum snuðið sitt að ári, var ekki alveg tilbúinn í slíkt núna...
Hann bræddi síðan bóndakonuna og hún vildi ekki að hann færi án þess að gefa lambi að drekka úr pela.

Fleiri myndir úr ferðinni má sjá með því að klikka hér.

fimmtudagur, maí 08, 2008

Reunion fegurðardrottninga

Lítil fegurðardrottning hitti kollega sína úr fegurðarbransanum á dögunum og sannaði að hún er sannkallað partýljón...

Æfingar

Sumar ungar dömur sverja sig í ættina og spjalla mjöööggg mikið, hafa hreinlega unun af því að sitja og tjatta um allt og ekkert...og ein eldri hér á bæ sem á að hafa meira vit enn sem komið er fer á niður á hennar plan og gleymir sér í "títíhíi, já, hæ, gúgú", mjög gefandi samræður - alveg að bonda þessar mæðgur hér á bæ

Ein og óstudd


og andartaki síðar

föstudagur, maí 02, 2008

Í sól og sumaryl...

..eða allt að því...

Einn að "baka piparkökur"



Og þess freistað að borða hádegisverð undir berum himni



Og sumar litlar dömur loksins farnar að sofa úti í vagni í tíma og ótíma