"Í Ólátagarði"

laugardagur, júní 14, 2008

Þrjóskan uppmáluð

Gugga: Óðinn, hvað heitir litla systir þín?
Óðinn: Jalka
Gugga: Nei Óðinn, þú veist hún heitir Embla Ísól
Óðinn: Nei mamma (sagt með ákveðnum nett pirruðum hneykslistón), litla jystir heitir ekki Embla Ísíjól, baaaaaara Jalkka!

Maður fær nú bara nett samviskubit yfir nafngiftinni!!!!!

fimmtudagur, júní 12, 2008

Sumar og sól



Það eru ekki margir dagar á ári sem hægt er að hafa tæplega fjögurra mánaða barn húfulaust úti hér á landi... en það kemur þó fyrir dag og dag!

Skírnin hennar Emblu



Skírnarathöfnin gekk vel fyrir sig og small undirbúningurinn rétt fyrir kl. 4 þegar athöfnin hófst hérna heima í Skálaheiðinni. Embla Ísól hagaði sér vel, lét aðeins í sér heyra rétt í lok athafnar, en bróðir hennar sýndi þó fyrri skírnartakta. Honum fannst lítið til þessarar athafnar koma og grýtti barbapabba í prestinn og vildi svo bara leika sér undir veisluborðinu.

Ekki alveg rétt mynd sem presturinn er með af Óðni - mundi eftir skírninni hans "Já, hann öskraði allan tímann, var það ekki? - man eftir honum! Hefði allt eins getað talið upp innkaupalista helgarinnar, það heyrði enginn hvað ég sagði"

Embla sofnaði síðan að athöfn lokinni í skamma stund en tók svo þátt í veislunni sinni góð sem fyrr...

með því að klikka hér, geturðu skoðað fleiri myndir frá skírninni

sunnudagur, júní 08, 2008

Og hvað á barnið að heita?

Þá er dóttirin komin með nafn og það reyndar tvö...

Höldum spennunni aðeins lengur... nokkrar vísbendingar

1. Fyrra eiginnafnið er úr norrænni goðafræði
2. Nafnið er ekki Freyja ;)
3. Nafnið er dregið af viðartegund
4. Hún var formóðir mannkynsins
5. Óðinn gaf henni andann
6. Hún var kærasta Hvíta víkingsins (þar með komið nafn á fjölskyldubílinn)
7. Ein manneskja hitti á nafnið í samkeppninni... (reyndar var hún með alla nafnabókina heee).

Eruð þið orðin heit ;)

8 Daman heitir Embla Ísól
og því má hætta að uppnefna hana litlu rækjuna og allt þar á milli.

Nánar um uppruna Emblu; Í norrænni goðafræði voru Askur og Embla gerð úr tveim trjám sem Borssynir, þ.e. Óðinn, Vili og Vé, fundu á strönd. Óðinn gaf önd og líf, Vili gaf vit og hræring og Vé gaf ásjónu, mál, heyrn og sjón. Svo gáfu þeir þeim klæði og nöfn, manninum nafnið Askur en konunni Embla, og ólst af þeim mannkynið sem gefinn var Miðgarður til að búa í.

Reyndar er Óðinn á því að systir hans "litla barnið" heiti allt annað eða Salka... ;)
Erum að reyna að leiðrétta þetta heee

Við óskum Auði kærlega til hamingju í nafnasamkeppninni. Verðlaununum verður komið til hennar á næstu dögum. Er það ekki tíbískt að bumbulína vinni áfeng verðlaun!

fimmtudagur, júní 05, 2008

Vorhátíð á Kópahvoli



Óðinn fjöllistamaður hélt sína fyrstu sýningu um daginn. Hann sýndi listaverk unnin með ýmsum aðferðum. Einnig sungu börnin um vorið og "upp/undir/yfir brúna" búið að vera að kenna þeim merkingu þessara orða. Að lokum var sýnt video frá danskennslu krakkanna á vordögum. Óðinn var reyndar oft lasinn þegar kennslan fór fram, en hann fór þó að sýna meiri hluttekningu þegar leið á kennsluna.

Sonurinn misskildi víst söngatriðið eitthvað, var ekkert að stilla sér upp með hinum börnunum. Hann hélt sig í miðjunni, hélt greinilega að hann væri nafli alheimsins og allt snérist um hann. Hann var því ekki jafnprúður og stilltur og hin börnin, fílaði athyglina aðeins of vel!

stærri strákur

Stórmerkilegur atburður átti sér stað hér síðustu helgi er lítill bleyjulaus strákur fór á koppinn og pissaði og endurtók svo aftur 2 dögum síðar þegar hann var aftur hafður bleyjulaus. Það er því greinilegt að lítill strákur sem orðinn svolítið stærri er tilbúinn í að hætta á bleyju.

Hann kýs þó bleyjuna fremur en bleyjuleysið, virðist eitthvað öryggi í henni.

Það er því stefnt að því að taka bleyjuna af kútnum endanlega í byrjun júlí, þegar hann fer í sumarfrí...

ÞRÍR DAGAR EFTIR...

AF NAFNASAMKEPPNINNI BITTURNAR MÍNAR...
TAKIÐ NÚ ÞÁTT, AÐEINS AÐ REYNA AÐ LÍFGA UPP Á GAGNVIRKNINA HÉR Á BLOGGINU...
SENDIÐ NÚ INN COMMENT OG FREISTIÐ ÞESS AÐ VINNA RAUÐVÍNSFLÖSKU.

MAX 2 ÁGISKANIR Á MANN - SUMIR ERU SVO ÞYRSTIR AÐ ÞEIR HAFA GEFIÐ UPP ALLA NAFNABÓKINA... :)

þriðjudagur, júní 03, 2008

Ísland í dag...

...klukkan níu í morgun á leið í skólann...
sumarið loksins komið!









Í fantasíuveröldinni - Gosi lokaður inni í búri!

Nafnasamkeppni

Við erum því sem næst lent á endanlegu nafni (99,9% komið) - Fyrra eiginnafn er í höfn, einungis spurning hvort ákveðið seinna eiginnafn fylgi með því eða ekki.

Það er því búið að opna fyrir nafnasamkeppni hér í "comments"! Vegleg verðlaun í boði...

Þið segist svo mörg vita hvað hún mun heita, komið nú fram í dagsljósið með spádómana :)

5 dagar í nafn

Litla rækjan er alltaf jafn prúð - helst til ef hún skreppur í vinnuna með móðurinni sem hún fer að kvarta eitthvað - kann best við 100% athygli en ekki athygli í hjáverkum.

Í vinnunni eru nokkrir sem bara geta ekki munað hvaða kyn hún er - greinilegt að litirnir í fötunum hennar hjálpa ekki til við greininguna!

Við settum upp smá höfuðfatasýningu hér heima um daginn, hér er afraksturinn ...









Stiklur


Þar sem húsmóðirin hefur ekki staðið vaktina síðustu daga verður hér stiklað á stóru frá síðasta bloggi...
____________________

Þegar fólk eyðir fleiri stundum á steypunni heima heldur en í vinnunni kviknar löngun í að gera heimilið meira kósý og persónulegra. Þannig hafa "grænir" fingur húsmóðurinnar plantað Ikea tré og blómum á veggi íbúðarinnar og aldrei að vita nema eytt verði í alvöru plöntur líka fyrir helgina.



Einnig þótti loksins kominn tími (3,5 árum eftir að flutt er inn) á gardínur í stofuna. Myndarlegi gæinn sem bjó í húsinu andspænis er nefnilega fluttur og einn talsvert eldri með varúlfaloðið bak fluttur inn, húsmóðurinni til mikillar armæðu (léleg skipti þar). Útsýnið er semsagt ekki jafnfagurt og áður og því vissara að geta lokað það úti og okkur hin inni...

Svo verður haldið áfram að snurfusa fram að helgi með hinu og þessu... skyldi takast að finna fagrar myndir til framköllunar á veggina fyrir skírn til að gera heimilið enn persónulegra??? kemur í ljós...

__________________

Eitt af því sem konur hafa áhuga á eftir barnsburð er vigtin. Vigtin hér virðist eitthvað biluð. Kannski ástæðan sé sú að húsmóðirin hleypur ekki hálfmaraþon eins og ein í fjölskyldunni og ekki heldur 8 km eins og góð vinkona gerir í Vesturbænum (óbeinu aðhaldi og hvatningu hér beint til spantex gellanna heee).

Húsmóðirin hugsaði þó á fimmtudaginn að nú væri nóg komið í þyngdaraukningunni og svuntusöfnun. Það var þegar hún hlammaði sér upp í bílinn sem við það vaggaði vel til hliðanna, ekki bara svona nett einu sinni til að jafna þyngd, heldur hristist hann vel og alltof lengi, svo lengi að húsmóðirin hugsaði "nei, andskotinn - ég trúi ekki að ég sé orðin svona þung" - síðan þegar bíllinn loks hætti að vagga prufaði hún að velta sér til og frá til að athuga hvort þetta rugg yrði endurtekið sem það gerði ekki ... Henni var því "létt" þegar hún kveikti á útvarpinu og fékk þar staðfestingu á að þetta var "bara" rosastór jarðskjálfti. Prins póló var því opnað og étið af bestu lyst.

Á föstudagsmorgninum fóru mæðgurnar síðan á jarðskjálftaslóðir eða í Ostabakka ásamt vinnufélögum og gerðu bústaðinn kláran fyrir sumarið.

_________________

Í leikskólanum er nýlega yfirstaðin vika sem var tileinkuð Astrid Lindgren. Sonurinn heltekinn af Emil og Línu eftir hana. Það tók þó húsmóðurina nokkra daga að fatta að frekjulegi öskurtónninn í syninum var í raun eftirherma af föður Emils að kalla á hann "Eeeemmil". Stundum er bara erfitt að skilja 2,5 ára tungumálið...

Ástin á apanum kviknaði aftur í kjölfarið þegar hann tengdi hann við Línu langsokk


________

Móðir: "Nei, Óðinn ekki þetta, ekki taka moppuskaftið"
sonur: "nei, mamma."
Móðir: "Hlýddu Óðinn. Þetta er ekki leikfang, þú getur brotið eitthvað! svona nú -EINN" (1-2-3 skammarkróks ögunarkerfið hér)
Sonur: "Nei, mamma Óðinn leika"
Móðir: "Tveir - vertu góður og settið skaftið aftur inn" (sagt blíðum rómi eftir ógnandi tvo)
Sonur: (sonurinn beygir sig og setur puttann i moppuklemmuna "Mamma - Krókódillinn bíta Óðinn sinni"

__________________




Faðir: "Heyrðu, við verðum að muna að taka þessar sokkabuxur sem Óðinn er í frá, eru orðnar of litlar, klofið niðri við hné. Ég lét hann fara í þeim í leikskólann í morgun, nennti ekki að skipta..."

Móðir: "Já, munum það eftir þvott á þeim."

Stundu síðar hendir húsbóndinn sokkabuxunum til húsmóðurinnar sem er á leið í þvottaherbergið...

Móðir: "Já,há, bíddu eru þetta sokkabuxurnar sem þú varst að tala um?"

Faðír: "já, þær eru orðnar eitthvað snollaðar"

Móðir: "Mig skal ekki undra, systir hans á þær!"

___________________________

Púst getur líka leitt gott af sér, sérstaklega þar sem yfirleitt þarf að beita brögðum til að fá soninn til að samþykkja notkun á því. Þannig er gula pústið Lilli klifurmús og það bláa Mikki refur. Belgurinn er síðan tré og sá sem er ekki í trénu reynir sífellt að komast upp í það... mikið leikrit hér með það. Á meðan er talið upphátt sem hefur nú leitt til þess að sonurinn telur upp að 10. Hann hefur gert það stundum og svo næst ruglast hann, en nú er líklegast hægt að fullyrða að hann kann það.

Einnig þykir hann hafa einstaka púslhæfileika og rúllar upp púslum fyrir 4+



______________________

Nú á að hitta prestinn eftir nokkrar klukkustundir. Foreldrarnir standa enn í þeim sporum að geta ekki sagt honum nákvæmlega hvað dóttirin heitir...skyld´ða verða eitt nafn eða tvö nöfn????



Litla rækjan (eitt af síðustu skiptunum sem maður getur notað það heee) hefur nú uppgötvað tærnar sínar, gerðist um daginn þegar húsmóðirin var að skipta á henni og stakk tásunum hennar óvart upp í hana - húsbóndinn benti húsmóðurinni á þetta afrek hennar. huhmmm, já - henni virtist bara þykja tásurnar góðar á bragðið!